St. Georgsgildið Kvistur

Lög St. Georgsgildisins Kvists

Samþykkt á fundum þann 30. janúar og 27. febrúar 1996.

1. grein
Félagið heitir St. Georgsgildið Kvistur og er grundvöllur þess fólginn í skátalögunum og skátaheitinu.  Lögheimili þess er á Akureyri og nefnast félagar þess “gildisskátar”.  Gildið er aðili að Landsgildinu, sem er landssamband St. Georgsgilda á Íslandi og er háð lögum þess og samþykktum.


2. grein
Markmið St. Georgsgildisins Kvists eru:
    Að lifa lífinu í samræmi við hugsjónir skátahreyfingarinnar.
    Að flytja hinn sanna skátaanda inn í samfélagið sem við lifum og störfum í.
    Að veita skátastarfinu stuðning, útbreiða skátahugsjónina, stuðla að varðveislu skátaminja og vera tengiliður milli skátahreyfingarinnar og eldri skáta.


3. grein
St. Georgsgildið Kvistur á Akureyri tekur ekki afstöðu í stjórnmálum eða trúmálum og leggur áherslu á umburðarlyndi og víðsýni gagnvart skoðunum annarra.


4. grein
Fullgildir félagar í St. Georgsgildinu Kvisti á Akureyri geta þeir orðið sem orðnir eru 18 ára og hafa verið skátar eða hafa áhuga á starfi skátahreyfingarinnar; vilja leggja sitt af mörkum til að styðja starf yngri og eldri skáta; hafa hlotið samþykki stjórnar; hafa unnið gildisheitið og ritað nafn sitt í þar til gerða bók og þar með staðfest inngöngu sína í gildið.


5. grein
Gildisheitið er svohljóðandi: Ég lofa að lifa lífinu í samræmi við hugsjónir skátahreyfingarinnar og markmið St. Georgsgilda. 


6. grein
Aðalfundur skal haldinn í maímánuði ár hvert og skal boða til hans með með  minnst viku fyrirvara.  Tillögur til lagabreytinga skulu kynntar í fundarboði.  Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.  Stjórn St. Georgsgildisins Kvists á Akureyri skal skipuð fimm mönnum.  Embætti eru: gildismeistari, varagildismeistari, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi.  Á aðalfundi skal kjósa varagildismeistara sem síðan tekur við embætti gildismeistara að ári liðnu.  Annað hvert ár skal kjósa einn í stjórn til tveggja ára og hitt árið tvo til tveggja ára.  Aðrir stjórnarmenn en gildismeistari og varagildismeistari skipta með sér embættum á fyrsta stjórnarfundi.  Kjósa skal tvo skoðunarmenn reikninga annað hvert ár.


7. grein
Dagskrá aðalfundar skal vera:
    Skýrsla stjórnar.
    Skýrsla gjaldkera, endurskoðaðir reikningar lagðir fram og afgreiddir.
    Ákveðið árgjald næsta árs.
    Lagabreytingar, sé þeirra getið í fundarboði.           
    Kosning varagildismeistara.
    Kosning  annarra stjórnarmanna.
    Kosning tveggja skoðunarmanna ársreikninga.
    Önnur mál.


8. grein
Stjórn gildisins annast allan daglegan rekstur og fjárvörslu og skal reikningsárið vera frá 1. maí til 30. apríl.  Fundi skal halda mánaðarlega í október til maí og oftar ef ástæður þykja til.


9. grein
Ef St. Georgsgildið Kvistur á Akureyri hættir störfum af einhverjum orsökum skulu eigur þess renna óskiptar til styrktar skátastarfi á Akureyri.

10. grein
Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi og þarf a.m.k. 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna að greiða lagabreytingunum atkvæði til þess að þær öðlist gildi.


11. grein
Lög þessi öðlast þegar gildi, þ.e. þriðjudaginn 30. janúar 1996 með breytingum 25. maí 2004 og 30. maí 2006.